
Það hafa margar og góðar hugmyndir komið fram, bæði í kommentum hér, í tölvupóstum til "allra" og bara svona beint til mín.
Eitt er á hreinu. Það verður aldrei hægt að gera öllum til geðs en ég er að reyna að fara hinn gullna meðalveg og taka tillit til sem flestra.
Annað er líka á hreinu. Það er mismikill áhugi á því að taka þátt í svona ættarmóti og ég vil hreinlega biðja þá sem hafa lítinn áhuga á þessu að leiða þetta hjá sér. Nema! Ég ætlast til að mín kynslóð sem hefur fengið tölvupósta frá mér láti afkomendur sína vita. Ég hef sent tölvupósta á mína kynslóð, þ.e. börn gömlu systranna fjögurra. Ég hef EKKI sent neitt á barnabörn þeirra og ekki heldur talað við ættmæðurnar. Þetta er nokkuð sem ég ÆTLAST til að fólkið í minni kynslóð geri, þ.e. veki athygli kynslóðarinnar hinna á þessu. Þannig að þótt einhvern í minni kynslóð langi ekki til að koma, þá getur fólk nú samt látið börnin sín vita, því ég þykist nokkuð viss um að mörgum af börnunum okkar þætti þetta gaman og ég hef fundið talsverðan áhuga frá þeim.
Spurning um nefnd: Jú, það hljómar skynsamlega að hafa nefnd með fulltrúa frá hverri systur. En í framkvæmd er það mjög erfitt. Ef ég ætti að vera í svona nefnd þyrfti ég líklega að fara suður og ég á ekkert erindi þangað á næstu vikum eða mánuðum. Það eru langar vegalengdir hér á þessu landi og við búum dreift. Í staðinn ætla ég að stinga upp á því að fólk taki að sér afmarkaðri verkefni. Þannig gæti einhver fjölskyldan eða fólk sem býr í sama bæ og hefur tök á að hittast, tekið að sér t.d. að sjá um skemmtidagskrá. Annar hópur gæti séð um matinn á laugardagskvöldinu. Þriðji aðili gæti búið til dagskrá. Og svo framvegis. Já, og það væri fínt ef einn frá hverri systur tæki að sér að tryggja að hinir viti svona það mikilvægasta, líka þeir sem nota ekki tölvur. Sjálfboðaliðar í það verk óskast.
Það sem ég ætla að taka að mér er að halda utan um þessa bloggsíðu og halda utan um hver gerir hvað. Já, og finna stað og tíma.
Varðandi staðinn:
Við höfum haft þetta við Koðralæk sem er að mörgu leiti sniðugt. Það er ódýrt/ókeypis og þrjú hús á staðnum. Smá "fótboltavöllur" og að sjálfsögðu eru þetta söguslóðir ættarinnar. Ef við færum okkur annað erum við jú komin burt frá söguslóðunum og þurfum að fara að borga eitthvað fyrir þetta. Þar sem það eru ekki allir sem eiga hús þarna og þetta er MJÖG langt í burtu fyrir þá sem búa fyrir norðan/vestan þá hef ég fengið ábendingar um að hafa þetta í Borgarfirði/Dölunum/Snæfellsnesi.
Það sem þarf að vera til staðar er þá tjaldstæði, salur (til að borða saman laugardagskvöld og leita inn í ef veður er vont), salerni og gistiaðstaða fyrir þá sem vilja ekki vera í tjaldi. Það eru þónokkrir staðir sem bjóða upp á svona "bændagistingu" en það er ekki þar með sagt að þeir taki ættarmót. Ég hef átt athyglisverð samtöl við sveitahótelrekendur sem segjast vera búnir að gefast upp á að taka ættarmót vegna fyllerís á gamla fólkinu. Hmm... sé það nú ekki alveg fyrir mér hjá okkar fólki. En, hvað um það, það mun örugglega takast að finna hentugan stað. En fólk verður að vera tilbúið að borga fyrir tjaldstæði/svefnpokapláss/uppbúin rúm. Mér hefur líka verið bent á að það sé erfitt að reikna með fólki á svona hátíðir og þeir sem sjái um þetta verði stundum að taka á sig fjárhagslega ábyrgð á einhverju sem svo lendir á þeim að borga þegar upp er staðið. Það ætla ég ekki að fara út í. Þannig að ég vil finna stað þar sem fólk skráir sig beint til þeirra sem bjóða upp á gistinguna.
Varðandi tímasetningu:
Nú hætti ég á að stinga einmitt upp á helgi sem jón frændi var einmitt búinn að segja að hann kæmist ekki á, einmitt eins og ég vilji endilega ekki að jón frændi komi af því mér líkar ekkert vel við jón frænda (er nokkur jón í ættinni?). Ja, ég allavega er búin að fá nokkrar tillögur um að ég stingi upp á dagsetningum og láti fólk greiða atkvæði. Það er reyndar ekkert mjög lýðræðislegt því það eru alls ekki allir sem lesa þetta eða tjá sig. En, samt, til að virka ekki eins og einræðisherra þá ætla ég að stinga upp á dagsetningunum.
Við erum að tala um helgi, þar sem yrði dagskrá frá ca. hádegi á laugardegi og fram á nótt. Það ætti að nægja öllum til að komast á staðinn hvar sem þeir eru á landinu ef við finnum stað ekki allt of langt frá hringveginum.
Þegar ég skoða öll þau svör og ábendingar sem ég hef fengið og skoða hvaða helgar það eru sem fólk kemst ekki, þá er það bara helgin 16 - 17 ágúst sem enginn hefur nefnt, ja nema kannski eitthvað fólk sem er að flytja til Danmerkur. Og einhverjir eru eitthvað óljóst á ferð erlendis í ágúst. Kannski fólki detti ekki í hug að nefna þá helgi því hún er það seint. Svo er 26.-27. júlí líka nokkuð laus. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er útilokað að finna helgi sem allir komast og fólk hreinlega verður að forgangsraða. Ég myndi nú ekki hafa áhyggjur af veðrinu, það er hvort sem er aldrei hægt að stóla á veðrið hér á þessu landi. Einu sinni snjóaði í fjöll þegar við vorum á ættarmóti pabba megin í byrjun júlí.
Þannig að: Ég sting upp á helginni 16. - 17. ágúst sem fyrsta valkosti, 26. - 27. júlí sem öðrum valkosti og 9. - 10. ágúst sem þriðja valkosti. Og svo verð ég hreinlega að taka því ef einhver segist ekki komast einhverja helgi og við svo neyðumst samt til að velja þá helgi. Ef fólki er sama, þá má það segja það í stað þess að koma með uppástungu að ákveðinni helgi þegar hvaða helgi sem er væri jafn góð fyrir viðkomandi.
Jæja góðir hálsar, hvað segið þið þá? Teljarinn á síðunni segir að það kíki margir hér inn, kvittið endilega fyrir komu ykkar, líka þótt þið séuð til í allt og sama um tímasetninguna. Það má þá segja frá því.
Kveðja,
Fríða frænka.