Þetta er bloggsíða Ættarmóts Holtakotaættarinnar. Það stendur til að afkomendur systranna Rögnu, Ingu, Hlífar og Dóru Einarsdætra hittist eina helgi sumarið 2012.

Helgin sem um ræðir er 13. - 15. júlí.

Wednesday, August 20, 2008

Takk fyrir okkur :)

Er ekki vel við hæfi að birta hér mynd af tveimur dyggum mökum skimandi eftir einhverju sem við vitum ekki alveg hvað er. Munið að við höfum talað um að fólk skrifi færslur um mótið sem ég get birt hér, það er um að gera að búa til reynslubanka og segja hvað manni fannst vel heppnað og hvað mætti gera betur næst. Orðið er laust.

Wednesday, August 13, 2008

Allt að smella saman

Brátt rennur stundin upp. Ég ætla að reyna að hafa þetta síðustu færsluna. Það er nokkurnveginn komið á hreint hvað við verðum mörg, en það er eins gott að taka það samt fram að þótt einhver hafi ekki getað sagt með vissu að hann kæmi, þá er fólk líka velkomið á síðustu stundu. Góða veðrið sem ég pantaði ætlar að skila sér svo það er bara um að gera að koma sér í ættarmóts góðaskapið og fara að hlakka (meira) til.

Dagskráin er ekki fullmótuð, en það er komin beinagrind sem lítur svona út (Staða dagskrárstjóra er ennþá laus, sjálfboðaliðar óskast):

Föstudagur: Fólk kemur og tjaldar eða kemur sér fyrir í þeim herbergjum sem búið er að panta. Ekki ákveðin dagskrá, en ef gott er veður væri upplagt að skella sér í labbitúr um nágrennið og kanna aðstæður?
Laugardagur: Fleira fólk kemur og kemur sér fyrir.
Kl. 12 – 14. Nefndin (Fríða og Jóhanna R líklega) aðstoða staðarhaldara við að innheimta greiðslu fyrir gistingu og kvöldmat. Það er sem sagt þá og ekki á öðrum tímum sem fólk borgar fyrir þá þjónustu sem það kaupir þarna á staðnum. Og sem kvittun fær fólk þá nafnspjald sem gott er að hafa sýnilegt það sem eftir er mótsins.
14 – 18? Leikir og fleira.
19? - ? Sameiginleg kvöldmáltíð, matseðill kemur fram í næstu færslu hér á undan. Dóra Björk ætlar að sjá til þess að einhver taki að sér veislustjórn (hún sjálf?), Helga Lilja ætlar að búa til sönghefti, Jóhanna R ætlar að koma með videó sem má kannski sjá þá ef staðarhaldara tekst að vera búinn að útvega skjávarpa. Fleiri tillögur vel þegnar. Kann einhver að spila undir fjöldasöng? Og tekið skal fram að þar sem bar er á staðnum er ekki gert ráð fyrir að fólk komi með eigin drykki inn í kvöldmatinn.
Sunnudagur: Fólk tínist í burtu sjálft að eigin geðþótta. Kannski maður byrji á kapphlaupi samt áður en fólk fer að pakka saman?

Pökkunarlisti: Nú, og það sem þarf að pakka er þá fyrst og fremst góða skapið og svo má kíkja í skúffur og gá hvort maður á í fórum sínum gömul nafnspjöld sem má endurnýta. Það stendur ekki til að vera með neinn ættarmótssjóð, þannig að fólk ætti ekki að hafa önnur útgjöld en það sem Húnavellir fá fyrir mat, gistingu og aðstöðu. Svo er um að gera að taka bolta, sippubönd, og allskonar útileikjatæki með. Og munið, þetta er á Húnavöllum, ekki í Húnaveri. Kíkið endilega á heimasíðuna sem tengt er á hér að ofan og athugið hvað er í boði á staðnum. Okkur ætti ekki að leiðast, svo mikið er víst.

Smá praktískt í lokin. Þeir sem lögðu út fyrir staðfestingargjaldi fá endurgreitt þegar mótið er búið, ég held það sé einfaldast að staðarhaldari hreinlega millifæri til baka á minn reikning og ég skipti því svo niður á þá sem voru búnir að leggja pening í púkkið. Þetta er auðveldara en að blanda staðfestingargjaldinu inn í það sem við svo borgum hvert fyrir sig núna um helgina.

Sjáumst :)
Fríðafrænka

Thursday, August 7, 2008

Matseðill og fleira

Þá er komin tilaga að matseðli.

Rjómalöguð sveppasúpa, lambalæri (sem hann lýsti mjög fallega), og frönsk súkkulaðikaka með rjóma í eftirrétt, á 3.500 kr. og hálft verð fyrir 6 -12 ára að báðum árum meðtöldum, og frítt fyrir yngri börn.

Mér sýnist þetta nokkuð pottþétt, og ætti að falla að smekk flestra.


Ég ætla að reyna að halda utan um fjöldan og staðarhaldari vill fá töluna á þriðjudag 12 ágúst.

Ég tek niður fjöldan í mínum legg og Ella verður með Hlífar legg svo það vantar einhvern frá Ingu og Dóru legg sem væri til í að taka saman fjöldan hjá sínu fólki. Þegar svo einhverjar tölur eru komnar (helst fyrir þriðjudag) að koma því á comment eða senda mér póst johanna@plusnet.is


Það er hægt að fá skjávarpa þarna en það þarf að panta hann og ég ætla að gera það þegar ég læt vita með fjöldan.

Það er líka hægt að fá hljóðkerfi en það kostar 15.000 ,hann þarf að leigja það af öðrum,svo mér finnst það þá varla koma til greina, eða hvað finnst ykkur?

Kveðja Jóhanna Ragnars.

Wednesday, July 23, 2008

Sælir ættingjar

Það er eitthvað verið að reka á eftir færslu hér, en það er í rauninni litlu að bæta við það sem er búið að standa hér í síðustu færslu síðan ég veit ekki hvenær. Staðarhaldari hafði samband við mig um daginn og var nú bara að spá í hvort við yrðum svona 20, 80, eða 200. Og ég giskaði á að 80 væri næst lagi. Það er bara um að gera að panta gistingu með því að hafa samband við Húnavelli beint. Við þurfum í rauninni ekki að fara að stressa okkur mikið yfir öðru fyrr en eftir verslunarmannahelgi því hann sagðist nú bara plana eina helgi fram í einu. Já og vildi ítreka að þar sem það er bar á staðnum, þá sé ekki leyft að fólk komi með eigin drykki inn í kvöldverðinn á laugardeginum.

Ennþá eru lausar flestar þessar nefndarstöður sem nefndar eru í síðustu færslu.

En hvað segið þið, þið sem rekið hér inn nefið, látið endilega vita hvað þið ætlið að gera, hvort þið komið og hvort þið gistið á tjaldstæðinu eða inni. Það er nefnilega fínt að nota kommentakerfið í það.

Kv. Fríðafrænka

Friday, March 28, 2008

Verð og nefndir

Kæru ættingjar

Ég hef samið við Húnavelli um að við fáum aðstöðu þar 15. - 17. ágúst til að halda ættarmót. Til að við getum bókað þá helgi þurfum við að borga 50.000 krónur í staðfestingargjald sem búið er að ganga frá. Þ.e. ég er búin að borga þetta en það er ekki alveg endanlega alveg komið á hreint hverjir taka þátt í því með mér. Að gefnu tilefni vil ég benda á að staðfestingargjald er bara svona gjald sem þarf að borga til að taka helgina frá og hefur þannig séð lítið með heildarkostnaðinn að gera. Auk þess þurfa þeir sem vilja bóka herbergi að greiða 5000 krónur í staðfestingargjald fyrir þá pöntun, hver fyrir sig, inn á reikning 0307 26 670 kt. 6703060890. Þetta staðfestingargjald verður svo dregið frá því sem maður borgar fyrir það sem maður kaupir þarna, gistingu og mat. Ég geri ekki ráð fyrir að vera milligöngumaður þegar fólk pantar gistingu.

Það er gert ráð fyrir að allir gestir ættarmótsins taki þátt í hátíðarkvöldverði á laugardeginum og inni í verðinu fyrir þann kvöldverð er svo aðstaða inni alla helgina. Þannig að með því að kaupa þann kvöldmat, auk þess að borga fyrir þá gistingu sem hentar hverjum og einum, hvort sem það er svefnpokapláss, tjaldstæði eða uppbúið rúm, þá erum við í leiðinni búin að fá aðstöðu inni í skjóli fyrir veðrum og vindum.

Eftirfarandi verðlisti gefur vonandi vísbendingu um hvað þetta svo kemur til með að kosta, við getum svolítið ráðið því hvað við kaupum flottan kvöldverð, en verðið á gistingunni er allavega svona:

Gisting í tveggja manna herbergi með morgunverði: ein nótt 7.780, tvær nætur 14.800, þrjár nætur 21.000
Gistinga fyrir einn í herbergi með morgunverði: ein nótt 5.880, tvær nætur, 11.100, þrjár nætur 16.020
Dýna: 800
Uppábúin dýna: 1.600
Svefnpokapláss í tveggja manna herbergi með morgunverði: 6.180
Svefnpokapláss í eins manns herbergi með morgunverði: 4.990
Svefnpokapláss í skólastofu, morgunverður ekki innifalinn: 1.300

Tjaldstæði
Fullorðinn: 600
Börn 12 ára og yngri fá frítt
Rafmagn pr. sólarhring: 350

Morgunverðarhlaðborð
Fullorðnir: 980
Börn 6 - 13 ára: 490
Börn 5 ára og yngri fá frítt

Sundlaug og pottur opið 14:00 til 21:30
Fullorðnir: 300
Börn 6 - 13 ára: 150
Veiði í Svínavatni - ein stöng á dag 1.000

Verð í hátíðarmáltíð er samið um í hverju tilviki fyrir sig, börn 6 - 12 ára borga hálft gjald.
Aðstaða inni er innifalin í sameiginlegri máltíð.


Nú, og svo held ég að það sé að verða kominn tími á að auglýsa eftir sjálfboðaliðum í nefndir. Þær nefndir sem mér dettur í hug að gæti verið sniðugt að hafa eru til dæmis:

Dagskrárnefnd (utan kvöldverðar), sem sér um að finna upp á leikjum og öllu mögulegu skemmtilegu fyrir unga jafnt sem aldna, saman og sitt í hvoru lagi.

Kvöldverðarnefnd sem sér um að ákveða matinn og samskipti við Húnavelli um það mál. Og heldur utan um skráningar í kvöldmatinn.

Kvöldverðardagskrárnefnd sem sér um að fólk skemmti sér yfir borðhaldinu, útbýr sönghefti, finnur veislustjóra, finnur gítarleikara og svo framvegis.

Fleiri hugmyndir að nefndum?

Já, og nefndin sem ég er í sem sér um bloggið.

Fyrstur kemur, fyrstur fær, hver vill vera í hvaða nefnd?

P.s. Smá uppfærsla. Það er einn fulltrúi frá hverri systur búinn að taka á sig 10.000 af staðfestingargjaldinu þannig að það er alltsaman frágengið.

Monday, March 17, 2008

Staðfestingargjald

Jæja, þá er ég búin að finna stað. Sumstaðar er farið fram á gífurlega hátt staðfestingargjald og ætlast til að þeir sem standa fyrir þessu bæði sjái um að innheimta þann pening og raða fólki í rúm og hvað veit ég. Ekki langar mig mikið til að standa í því. En á Húnavöllum er ekki alveg svona mikið í höndum "nefndarinnar" þótt það þurfi að greiða 50.000 í staðfestingargjald. Ég gæti svosem alveg lagt út fyrir þessu en langar samt til að stinga upp á því að hver leggur borgi 10.000. Þá sé ég um 20.000, við erum jú flest í mínum systkinahóp. Hvað segið þið um það, hver og hverovill? Plís, bjóðið ykkur nú fram svo ég þurfi ekki að leggjast í símann og betla. Ef einn afkomandi hverrar systur tekur þannig á sig 10.000 og þá er þetta alltsaman orðið viðráðanlegra. Sjálfboðaliðar sendi mér tölvupóst á fridakjartans@gmail.com og ég sendi þá upplýsingar um hvert á að senda peninginn.

En eins og ég segi, þá er ég búin að bóka Húnavelli þessa umræddu helgi. Ég hef talað við fólk sem hefur verið þar á ættarmóti og það hefur látið mjög vel af því. Þannig að ég held nú að það eigi eftir að verða fínt.

Friday, March 7, 2008

Dagsetning 15. - 17. ágúst 2008

Góðir hálsar og aðrir hálsar, ættingjar og fleiri.

Nú er ég búin að hafa smá vonda samvisku yfir þvi að hafa ekkert gert í þessum málum eins og góðum nefndarmanni sæmir. Svo lagði ég höfuðið áfram í bleyti og talaði við margt fólk og þykist nú nokkuð viss um að helgin 15 - 17 ágúst gangi upp. Svo eru tveir staðir sem ég hef augastað á og ég er að bíða eftir tilboðum þaðan. Og bæði snúast tilboðin um helgina 15 - 17 ágúst.

Þannig að... Ættarmótið verður þá helgi. Og nánari upplýsingar um þetta alltsaman koma alveg örugglega fyrir páska. Og þá ætla ég nefnilega líka að láta aðra taka við af mér við að búa til dagskrá og allt það. Innan þeirra ramma sem staðarhaldarinn setur þó.

Það er smá hausverkur með tryggingargjald, ég vil jú ekki sjálf ganga í ábyrgð fyrir miklum pening, en ég held að það ætti að ganga upp ef ég fæ fleiri í lið með mér, við leysum þann vanda. Mér sýnist það hreinlega ekki ætla að ganga upp að panta eitthvað án þess að borga tryggingargjald. Þar sem það er hægt segist fólk bara ekki taka ættarmót lengur. Svo nú er eins gott að sýna hvað okkar fyrirmyndarætt getur hagað sér vel eina helgi. Við erum sko alls ekki eins og hinir lúðarnir sem koma óorði á alla ættingjana á einu bretti með því að drekka sig útúrhaugafulla og liggja svo á flautunni í húsbílnum alla nóttina og halda vöku fyrir saklausum útlendingum sem eiga af tilviljun leið hjá.

ps. vúpps, ég hafði víst óvart seinkað þessu um einn dag og er búin að leiðrétta þetta núna.

Fríða

Saturday, February 23, 2008

Miklar vangaveltur

Kæru frændsystkin, foreldrar, börn, tengdafólk og allir sem áhuga hafa.

Það hafa margar og góðar hugmyndir komið fram, bæði í kommentum hér, í tölvupóstum til "allra" og bara svona beint til mín.

Eitt er á hreinu. Það verður aldrei hægt að gera öllum til geðs en ég er að reyna að fara hinn gullna meðalveg og taka tillit til sem flestra.

Annað er líka á hreinu. Það er mismikill áhugi á því að taka þátt í svona ættarmóti og ég vil hreinlega biðja þá sem hafa lítinn áhuga á þessu að leiða þetta hjá sér. Nema! Ég ætlast til að mín kynslóð sem hefur fengið tölvupósta frá mér láti afkomendur sína vita. Ég hef sent tölvupósta á mína kynslóð, þ.e. börn gömlu systranna fjögurra. Ég hef EKKI sent neitt á barnabörn þeirra og ekki heldur talað við ættmæðurnar. Þetta er nokkuð sem ég ÆTLAST til að fólkið í minni kynslóð geri, þ.e. veki athygli kynslóðarinnar hinna á þessu. Þannig að þótt einhvern í minni kynslóð langi ekki til að koma, þá getur fólk nú samt látið börnin sín vita, því ég þykist nokkuð viss um að mörgum af börnunum okkar þætti þetta gaman og ég hef fundið talsverðan áhuga frá þeim.

Spurning um nefnd: Jú, það hljómar skynsamlega að hafa nefnd með fulltrúa frá hverri systur. En í framkvæmd er það mjög erfitt. Ef ég ætti að vera í svona nefnd þyrfti ég líklega að fara suður og ég á ekkert erindi þangað á næstu vikum eða mánuðum. Það eru langar vegalengdir hér á þessu landi og við búum dreift. Í staðinn ætla ég að stinga upp á því að fólk taki að sér afmarkaðri verkefni. Þannig gæti einhver fjölskyldan eða fólk sem býr í sama bæ og hefur tök á að hittast, tekið að sér t.d. að sjá um skemmtidagskrá. Annar hópur gæti séð um matinn á laugardagskvöldinu. Þriðji aðili gæti búið til dagskrá. Og svo framvegis. Já, og það væri fínt ef einn frá hverri systur tæki að sér að tryggja að hinir viti svona það mikilvægasta, líka þeir sem nota ekki tölvur. Sjálfboðaliðar í það verk óskast.

Það sem ég ætla að taka að mér er að halda utan um þessa bloggsíðu og halda utan um hver gerir hvað. Já, og finna stað og tíma.

Varðandi staðinn:

Við höfum haft þetta við Koðralæk sem er að mörgu leiti sniðugt. Það er ódýrt/ókeypis og þrjú hús á staðnum. Smá "fótboltavöllur" og að sjálfsögðu eru þetta söguslóðir ættarinnar. Ef við færum okkur annað erum við jú komin burt frá söguslóðunum og þurfum að fara að borga eitthvað fyrir þetta. Þar sem það eru ekki allir sem eiga hús þarna og þetta er MJÖG langt í burtu fyrir þá sem búa fyrir norðan/vestan þá hef ég fengið ábendingar um að hafa þetta í Borgarfirði/Dölunum/Snæfellsnesi.

Það sem þarf að vera til staðar er þá tjaldstæði, salur (til að borða saman laugardagskvöld og leita inn í ef veður er vont), salerni og gistiaðstaða fyrir þá sem vilja ekki vera í tjaldi. Það eru þónokkrir staðir sem bjóða upp á svona "bændagistingu" en það er ekki þar með sagt að þeir taki ættarmót. Ég hef átt athyglisverð samtöl við sveitahótelrekendur sem segjast vera búnir að gefast upp á að taka ættarmót vegna fyllerís á gamla fólkinu. Hmm... sé það nú ekki alveg fyrir mér hjá okkar fólki. En, hvað um það, það mun örugglega takast að finna hentugan stað. En fólk verður að vera tilbúið að borga fyrir tjaldstæði/svefnpokapláss/uppbúin rúm. Mér hefur líka verið bent á að það sé erfitt að reikna með fólki á svona hátíðir og þeir sem sjái um þetta verði stundum að taka á sig fjárhagslega ábyrgð á einhverju sem svo lendir á þeim að borga þegar upp er staðið. Það ætla ég ekki að fara út í. Þannig að ég vil finna stað þar sem fólk skráir sig beint til þeirra sem bjóða upp á gistinguna.

Varðandi tímasetningu:


Nú hætti ég á að stinga einmitt upp á helgi sem jón frændi var einmitt búinn að segja að hann kæmist ekki á, einmitt eins og ég vilji endilega ekki að jón frændi komi af því mér líkar ekkert vel við jón frænda (er nokkur jón í ættinni?). Ja, ég allavega er búin að fá nokkrar tillögur um að ég stingi upp á dagsetningum og láti fólk greiða atkvæði. Það er reyndar ekkert mjög lýðræðislegt því það eru alls ekki allir sem lesa þetta eða tjá sig. En, samt, til að virka ekki eins og einræðisherra þá ætla ég að stinga upp á dagsetningunum.

Við erum að tala um helgi, þar sem yrði dagskrá frá ca. hádegi á laugardegi og fram á nótt. Það ætti að nægja öllum til að komast á staðinn hvar sem þeir eru á landinu ef við finnum stað ekki allt of langt frá hringveginum.

Þegar ég skoða öll þau svör og ábendingar sem ég hef fengið og skoða hvaða helgar það eru sem fólk kemst ekki, þá er það bara helgin 16 - 17 ágúst sem enginn hefur nefnt, ja nema kannski eitthvað fólk sem er að flytja til Danmerkur. Og einhverjir eru eitthvað óljóst á ferð erlendis í ágúst. Kannski fólki detti ekki í hug að nefna þá helgi því hún er það seint. Svo er 26.-27. júlí líka nokkuð laus. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er útilokað að finna helgi sem allir komast og fólk hreinlega verður að forgangsraða. Ég myndi nú ekki hafa áhyggjur af veðrinu, það er hvort sem er aldrei hægt að stóla á veðrið hér á þessu landi. Einu sinni snjóaði í fjöll þegar við vorum á ættarmóti pabba megin í byrjun júlí.

Þannig að: Ég sting upp á helginni 16. - 17. ágúst sem fyrsta valkosti, 26. - 27. júlí sem öðrum valkosti og 9. - 10. ágúst sem þriðja valkosti. Og svo verð ég hreinlega að taka því ef einhver segist ekki komast einhverja helgi og við svo neyðumst samt til að velja þá helgi. Ef fólki er sama, þá má það segja það í stað þess að koma með uppástungu að ákveðinni helgi þegar hvaða helgi sem er væri jafn góð fyrir viðkomandi.

Jæja góðir hálsar, hvað segið þið þá? Teljarinn á síðunni segir að það kíki margir hér inn, kvittið endilega fyrir komu ykkar, líka þótt þið séuð til í allt og sama um tímasetninguna. Það má þá segja frá því.

Kveðja,
Fríða frænka.

Friday, February 15, 2008

Auðveldari komment

Ég flýtti mér svo mikið að setja þessa síðu upp að ég gaf mér ekki tíma til að fikta í stillingum þannig að fyrst voru það bara þeir sem eru með blogger reikning sem gátu skrifað athugasemdir. Nú er ég búin að breyta því og vonandi geta allir skrifað athugasemdir.

Kv.
Fríða

Fyrsta umræða

Nei vitiði nú hvað. Þetta gengur ekki svona. Nú flýtti ég mér að setja upp þessa bloggsíðu: http://holtakot.blogspot.com/ til að það yrði ekki meiri ruglingur með þessa tölvupósta. Sumir póstar fara víst bara á síðasta ræðumann en ekki til allra, eða til mín. Þannig að ég er búin að missa yfirsýnina. Viljiði gera mér þann greiða að tékka á því hvort ég hafi nú örugglega verið á listanum yfir þá sem þið senduð svarpóst til. Stundum gerist það ef maður ýtir bara á "reply" og ekki "reply to all" að svarið fer bara á síðasta ræðumann.

Og svo vil ég leggja til að við förum að nota kommentakerfið á þessari bloggsíðu til að tala um þetta og hlífa þá þeim sem vilja frekar vera utan þessarar umræðu og eru til í allt eða þannig. Og látið endilega foreldra ykkar og börn og barnabörn og maka og tengdabörn og barnabarnabörn vita allt sem máli skiptir. Þ.e. slóðina á þessa síðu t.d. ef fólk vill fylgjast með ferlinu, eða bara stund og stað þegar þar að kemur.

En, ég allavega er búin að fá nokkrar tillögur sem annaðhvort snúast um fyrri part sumars eða seinni part sumars. Ég reyndar veit ekki alveg af hverju fólki finnst ágúst ekki góður mánuður. Nú bý ég hjá tjaldstæði og sé að það er nánast tómt strax eftir verslunarmannahelgi, þrátt fyrir fínasta veður. Höldum við Íslendingar að það sé ekki hægt að vera í tjaldi í ágúst? Ég sé allavega marga kosti við ágúst. Er einhver sem getur alls ekki séð af t.d. helginni eftir verslunarmannahelgi til að koma á ættarmót?

Nú og ef þið viljið skrifa pósta, ekki bara komment(athugasemdir) á þessa síðu, sendið þá á mig og ég sé um að birta þá. Það er víst best að það séu ekki margir að grauta í því.

Frænkukveðja,
Fríða

Thursday, February 14, 2008