Þetta er bloggsíða Ættarmóts Holtakotaættarinnar. Það stendur til að afkomendur systranna Rögnu, Ingu, Hlífar og Dóru Einarsdætra hittist eina helgi sumarið 2012.

Helgin sem um ræðir er 13. - 15. júlí.

Thursday, February 9, 2012

Frá herra Gúggla

Ég fór að gúggla og ég get ekki séð að Varmaland sé með sérstaka heimasíðu en á þessari síðu fann ég þessa umfjöllun. Ég leyfi mér að setja hana hérna inn í trausti þess að það sé í lagi ef ég set inn tengilinn:
http://blogg.visir.is/utilegur/2008/07/28/varmaland-i-borgarfir%C3%B0i-25-27-juli/
Þetta hljómar ekki illa, rétt að athuga þetta með að taka frá pláss á tjaldsvæði svo að við dreifumst ekki um allar koppagrundir.
ATHUGIÐ AÐ FÆRSLAN ER AÐ VERÐA FIMM ÁRA GÖMUL SVO AÐ SITTHVAÐ GETUR HAFA BREYST, VONANDI ÞÓ EKKI TIL HINS VERRA.
--------------------------------------
Upphaflega ætluðum við að tjalda að Hraunsnefi í Borgarfirði um helgina enda leist okkur alveg gífurlega vel á staðinn miðað við það sem við sáum á heimasíðunni þeirra:http://www.hraunsnef.com/  Við gengum meira að segja svo langt að bóka okkur “bás” þar á tjaldstæðinu gegnum netið á miðvikudeginum.  Það má þó í raun segja að heimasíðan þeirra sé of flott enda urðum við fyrir vonbrigðum þegar við komum þangað.  Við ákváðum því að afbóka “básinn” okkar og kíkja í staðinn í Varmaland.
Ég man þegar við komum fyrst í Varmaland í fyrra (einnig eftir að hafa hætt við annað tjaldstæði) að okkur leist nú ekkert á staðinn við fyrstu sýn, fannst vanta leiktæki o.fl., en létum okkur samt hafa það.  Raunin varð hins vegar sú að allir skemmtu sér konunglega, bæði börn og fullorðnir og varð það einnig raunin núna.  Leiktækjaskortur kemur lítið sem ekkert að sök enda nota krakkarnir skemmtilegt landslagið og skurði sem afmarka tjaldstæðið sem leikvelli í stað trampolína o.s.frv. og virðast reyndar skemmta sér miklu betur þannig.  Fyrir ofan svæðið gnæfir fjall/klettur og er gaman að fara í gönguferðir þangað upp, enda útsýnið vægast sagt geggjað.  Einnig eru þarna leiktæki fyrir allra minnstu börnin, eins og rólur, rennibraut og sandkassi auk þess sem flottur fótboltavöllur er skammt frá, að ógleymdri sundlauginni.  Já, það er rétt… það er sundlaug á staðnum, fín 25 m laug með einum heitum potti og ágætum sturtuklefum.  Öll aðstaða á tjaldstæðinu sjálfu er einnig mjög góð.
Við vorum mjög heppin með veður og langflesta nágranna þessa helgi og útilegan í Varmalandi var bara nánast fullkomin.  Þannig var það líka í fyrra !!
Verð: 700 kr. sólarhringurinn fyrir hvern fullorðinn en frítt fyrir börn yngri en 12 ára …  Aðstaða: Frábær - bæði heitt og kalt vatn, vaskar og salerni, auk sturtu- og sundlaugaaðstöðu gegn greiðslu yfir daginn …  Leiktæki: Ekki er mikið um leiktæki, utan fótboltavallar, nema kannski fyrir yngstu börnin …  Umhverfi: Mjög fallegt og skemmtilegt, ekki síst ef gengið er upp á klettinn fyrir ofan svæðið …  Fjarlægð/tími frá Reykjavík: Það tekur tæplega eina og hálfa klst. að aka frá Reykjavík og að Varmalandi.
Stjörnugjöf: 4/5
Gott ráð: Það er ekki vitlaust að spyrja staðarhaldara (inni í sundlaug) hvort von sé á hópum eða eitthvað ákveðið svæði frátekið fyrir hópa, áður en maður tjaldar.  Tjaldstæðið er nefnilega ansi stórt, tekur ca. 300 manns og hægt að vera sitt hvorum megin við veginn inn á svæðið.  Okkur hefur sýnst að stærri hópar séu oftast norðan megin við veginn, en þó er bara best að spyrja í afgreislunni.

Þá er því slegið föstu.

Við teljum að svo margir séu jákvæðir að við sláum þessu föstu. Það er að segja stað og stund.

Í boði eru 10 herbergi. Mér skilst að þau séu tveggja manna en væri hægt að skjóta inn aukadýnu ef vill. Þau kosta 5000 nóttin. (Er ekki rétt skilið Heiðar að herbergið sé á þessu verði en ekki gisting per mann í herbergi eða?)
Mér er sagt að Atli, Ragna, Einar K, Elfa og Heiðar séu búin að gefa út að þau vilji herbergi þannig að 5 eru eftir.
Látið endilega vita í kring um ykkur þau sem ykkur þykir líklegt að langi í þennan kost. Er ekki líklegt að það séu helst þeir hrörlegustu :)?

Líka er í boði svefnpokapláss á dýnu í skólastofu og það hlýtur að vera meira fjör? Gaman saman þið vitið. Kannski líka ágætt að vita af því sem flóttaleið ef tjaldsvæði rignir á kaf. Þar kostar nóttin 1000 og ég get varla ímyndað mér að þörf sé á að panta slíkt með löngum fyrirvara.

Nóttin á tjaldsvæði kostaði 800 í fyrra, ekki komið á hreint hvað verður núna. Þar geri ég ráð fyrir að sé miðað við per fullorðin.

Ég verð að viðurkenna fávisku mína á þessu sviði þannig að við beinum spurningum til Heiðars ef eitthvað er óljóst sem þið viljið vita sem fyrst um staðinn. Gerið það samt endilega á þessum vettvangi þannig að allir geti haft gagn af.

Nú skuluð þið bara fara að semja skemmtiþætti og upphugsa leiki.

Ef ykkur liggur eitthvað á hjarta sem verðskuldar færslu þá skuluð þið senda mér það í tölvupósti ellatumsu@gmail.com og ég skal glöð setja það hér inn. (Þegar netið hangir inni hjá mér.) Eða Fríða. fridakjartans@gmail.com


Sunday, February 5, 2012

Hvar og hvenær?

Kæru þið öll. Það er víst kominn tími á að gera eitthvað róttækt í ættarmálum er það ekki? Eins og einhverjir muna væntanlega komumst við að þeirri niðurstöðu síðast að Heiðar myndi verða góður í að halda utan um þetta næst og ég tók að mér að segja honum frá þessu áliti okkar og þegar ég gerði það létti ég höggið með því að bjóðast til að "hjálpast að". Síðan höfum við hist við eina jarðarför og haldið símafundi. Við töldum rétt og skynsamlegt að leita fyrir okkur um vesturlandið að þessu sinni og eftir nokkurt grúsk lenti Heiðar á Varmalandi í Borgarfirði. Þar vildi svo til að allt sumarið var bókað en ein helgi var að detta út; 13-15. júlí. Staðurinn virðist með viðráðanlega verðskrá og aðstöðu.

Nú er spurningin, hvað sýnist ykkur um stað og tíma? Að líkum eru alltaf einhverjir sem eru bókaðir annað, en ef þokkalegur hópur er til í þetta sláum við líklega til.

Heiðar setti inn á fésbókina eitthvað um málið en bæði er það að við erum nokkur sem ekki erum þar og svo held ég að auðveldara sé að halda utan um pakkann hér á blogginu og þá líka aðgengilegra að lesa síðar eftir þörfum.
Látið endilega skoðanir í ljós sem fyrst, við þurfum að staðfesta staðinn nú á næstu dögum.
Ella K.

Lokafærslan vegna mótsins 2008

Hér er færslan sem höfð var efst í sambandi við ættarmótið 2008
Þetta er bloggsíða Ættarmóts Holtakotaættarinnar. Það stendur til að afkomendur systranna Rögnu, Ingu, Hlífar og Dóru Einarsdætra hittist eina helgi sumarið 2008.

Helgin sem um ræðir er 15. - 17. ágúst. Staðurinn er Húnavellir. http://www.hotelhunavellir.is/
s.4535600/8984685. Þeir sem vilja gista inni panta sjálfir gistingu fyrir sig, þeir sem verða á tjaldsvæðinu þurfa ekki að panta fyrirfram.
Það er gert ráð fyrir að allir gestir ættarmótsins taki þátt í hátíðarkvöldverði á laugardeginum og inni í verðinu fyrir þann kvöldverð er svo aðstaða inni alla helgina. Þannig að með því að kaupa þann kvöldmat, auk þess að borga fyrir þá gistingu sem hentar hverjum og einum, hvort sem það er svefnpokapláss, tjaldstæði eða uppbúið rúm, þá erum við í leiðinni búin að fá aðstöðu inni í skjóli fyrir veðrum og vindum.

Matseðillin er:

Rjómalöguð sveppasúpa, lambalæri og frönsk súkkulaðikaka með rjóma í eftirrétt, á 3.500 kr. og hálft verð fyrir 6 -12 ára að báðum árum meðtöldum, og frítt fyrir yngri börn.


Verðið á gistingunni er svona:

Gisting í tveggja manna herbergi með morgunverði: ein nótt 7.780, tvær nætur 14.800, þrjár nætur 21.000
Gistinga fyrir einn í herbergi með morgunverði: ein nótt 5.880, tvær nætur, 11.100, þrjár nætur 16.020
Dýna: 800
Uppábúin dýna: 1.600
Svefnpokapláss í tveggja manna herbergi með morgunverði: 6.180
Svefnpokapláss í eins manns herbergi með morgunverði: 4.990
Svefnpokapláss í skólastofu, morgunverður ekki innifalinn: 1.300

Tjaldstæði
Fullorðinn: 600
Börn 12 ára og yngri fá frítt
Rafmagn pr. sólarhring: 350

Morgunverðarhlaðborð
Fullorðnir: 980
Börn 6 - 13 ára: 490
Börn 5 ára og yngri fá frítt

Sundlaug og pottur opið 14:00 til 21:30
Fullorðnir: 300
Börn 6 - 13 ára: 150
Veiði í Svínavatni - ein stöng á dag 1.000