Þetta er bloggsíða Ættarmóts Holtakotaættarinnar. Það stendur til að afkomendur systranna Rögnu, Ingu, Hlífar og Dóru Einarsdætra hittist eina helgi sumarið 2012.

Helgin sem um ræðir er 13. - 15. júlí.

Saturday, July 21, 2012

Það kemur auðvitað ekki til mála að hafa síðustu færslu fyrir lokafærslu.
Mér fannst mjög gaman á ættarmóti og hugsið ykkur bara muninn ef við hefðum verið viku seinna! Veðurstofan bendir fólki á að tjöld og ýmis annar búnaður gæti barasta fokið út í veður og vind. Talandi um vind má næsta nefnd kannski huga að því að finna mótsstað þar sem eru góð skjólbelti. Það er tæplega nóg að að þau nái manni í ökla. Líka væri notalegra að hafa styttra á milli húsafólks og tjaldbúa. Það myndi skipta verulegu máli ef viðraði illa til útiveru. Svo skiptir miklu að hafa gott svið og slatta af barnastólum :). Staðurinn var hins vegar fínn fyrir gönguferðir og leiki og stór kostur að þurfa ekki að leggja út staðfestingargjald og geta alveg ráðið matarfyrirkomulaginu.
Vel lukkað fannst mér til dæmis ratleikur sem hristi saman hópana og leiknu sögurnar sem fóru fram úr öllum væntingum. Legg eindregið til að það verði gert að föstum lið, nóg er til af sögunum. Sé alveg fyrir mér Litlu gulu hænuna til dæmis :)
Ég tók sáralítið af myndum, hef trúlega þóst upptekin af öðru en hér eru nokkrar úr ættarlabbinu sem endilega þarf líka að verða að föstum lið.
 Fólk fór upp, hver á sínum hraða og eins langt og hver vildi.
 Berjaþúfur fengu talsverða athygli.
 Þarna fékkst ágæt yfirsýn yfir héraðið
og mótssvæðið.
Þið megið gjarnan senda mér myndir til að setja hér inn, það hafa vafalaust verið teknar mörg hundruð og einhverjar hljóta að eiga erindi við okkur hér.



Komu alls: 13 og eldri 7 til 12 ára 0 til 6 ára Samtals:
Ragna 22 3 1 26
Inga 25 3 12 40
Hlíf 19 0 6 25
Dóra 16 3 5 24
Alls:  82 9 24 115

Thursday, July 19, 2012

Leiðrétting:
Kæra fjölskylda. Hér kemur færsla sem ég er ekkert montin af að þurfa að skrifa en rétt skal vera rétt. Þannig er að fartölvan mín gamla er ekki meiri fartölva en svo að hún gerir ekkert fyrir mig nema vera í sambandi við rafmagn. Til að framkalla lokaútreikning var ég því að vinna í henni á undan borðhaldinu og fékk þar á staðnum síðustu upplýsingarnar í púslið. Þar laumaðist inn í flýtinum ein samlagning sem ekkert átti að vera og í stuttu máli leiddi hún til þess að:
Verð á mat og sal fyrir hvern fullorðin átti að vera 1600 en ekki 2325. Munurinn er semsagt 725 krónur. Barnaverðið er rétt.
Við Heiðar erum sammála um að leysa málið með því að biðja ykkur að senda mér tölvupóst með reikningsnúmeri sem leggja má leiðréttinguna inn á. ellatumsu@gmail.com
Nú þegar vitum við að sumir vilja bara að þessi munur þeirra gangi í sjóð til næsta ættarmóts og auðvitað ráðið þið því hvert og eitt en það munar vissulega um þetta þegar greitt er fyrir marga.
Ég bið ykkur sem lesið þetta að upplýsa ykkar fólk ef þið haldið að þau lesi ekki bloggið svo að ekkert fari á milli mála hjá neinum og ég ítreka að við viljum gjarnan heyra frá öllum sem borguðu þannig að við getum fljólega verið með lokaniðurstöðu á hreinu.
Með afsökunarbeiðni, Ella.

Wednesday, July 11, 2012

Helga Lilja talaði við staðarhaldara og þar kom fram að ekki eru nein rúmföt fyrir gestina, hvorki í skólastofum né herbergjum. Bara dýna. Ég tók það fyrst þannig að það fylgdu sæng og koddi í herbergjunum, vantaði bara verin, en það er sem sagt ekki svo. Gott að vita áður en þið leggið í hann.
Enn er hægt að fá herbergi ef einhver vill.

Datt í hug að dagskrárrammi mótsins gæti litið einhvern veginn svona út:

Föstudagur: Fólk kemur sér fyrir og merkir sig og spjallar. Útigrill ætti þá að vera til reiðu væntanlega.

Laugardagur: Fyrir hádegi létt og góð fjölskyldugönguferð við allra hæfi og ég ætla fljótlega að komast að því hvernig laugin er opin.
 Uppfært:
 http://sundlaug.is/vesturland-sundlaugar/57-varmaland
Laugin er þarna sögð opin á föstudögum kl. 12-21, laugard. og sunnud. 11-18
 Eftir hádegi sápuboltinn og aðrir útileikir sem fólk væntanlega efnir til. Athugið að hafa föt til skiptanna í boltann, spilarar gætu greinilega blotnað. Ég stefni á að taka með mér þvottaklemmur og snúru :)

Síðan kvöldverður með dagskrá.

Heiðar og frú verða með yfirumsjón í eldhúsinu, það er að segja að jafna niður verkefnunum þar. Margir segjast tilbúnir að leggja hönd á plóg.
Í matinn verður úrbeinað lambalæri, kartöflusalat, grænmetissalat, sósa og rabarbarasulta.

 Ég held að við verðum bæði veislustjórar. Ég vona eindregið að þið séuð með eitthvað skemmtilegt á prjónunum. Það má gjarna hvísla því að mér svo að ég sjái sirka hvernig kvölddagskráin gæti litið út. Ég hef haft spurnir af nokkrum atriðum en það er nóg pláss eftir. Við stingum fjöldasöng inn á milli eftir smekk, ég hef heyrt af tveimur gítarleikurum. Ef einhverjir hafa í fórum sínum söngheftin frá því síðast þá endilega grípið þau með en Helga Lilja kemur með slatta.

Sunnudagur: Fólk blandar geði, leikur sér, klárar nestið og tygjar sig til brottfarar þegar líður á daginn, margir eiga stutt heim svo að ekkert liggur á.
Ég minni á myndirnar sem Palli var að tala um að sýna, sjá næstsíðustu færslu.
Ég er núna á hæl og hnakka að setja upp merkimiðaprentunina, held að ég sé búin að fá öll nöfnin svo að það ætti að ganga ef rafmagnið tollir inni og tölvan hrynur ekki. Þið komið með vasa :)
Verið nú dugleg að benda hér á hvort eitthvað er að gleymast.

Staðan núna er svona: 115 gestir, þar af 81 13 ára og eldri. Trúlega 25 til 30 inni í húsi. Veðurspá er ágæt.
Athugið að matinn og salinn er ekki hægt að greiða með posa. Við vitum ekki upphæðina en miðað við nýjustu tölur er salarleigan rúmar 720 krónur á hvern fullorðinn, 1/2 gjald fyrir 7 til 12 ára en ég hef ekki hugmynd um hvað maturinn kostar þar sem ekki er búið að kaupa inn, ég veit bara að sultan er frítt :)
114 búnir að staðfesta + einn sem lítur við á laugardaginn. Eins og ég hef sagt áður er skráningu ekki lokað en mjög gott að vita nokkurn veginn hverjir eru með.
Ég er komin hérna með fáein blöð sem ég hafði út úr Nínu og Fríðu. Þau eru í grænu, bláu, rauðu og gulu. Mér finnst síðra að nota hvítt sem aðallit svona vegna þess að það virkar kannski hlutlaust og meira sem reddingalitur en auðvelt að krydda bláa litinn með því sem bakgrunn eða eitthvað. Einhver ekki sáttur með það?
Ég er til í að prenta út nafnamiðana fyrir alla leggina, búin með Hlífarlegginn, en til þess þarf ég helst að fá nafnalistana í dag. Hentugast að einhver frá hverjum legg sendi mér þá bara beint í tölvupósti og þar þarf að vera skýrt hverra manna hver og einn er. Netfangið mitt er ellatumsu@gmail.com. og síminn 864-2573 464-3550
Ég ítreka enn að allir reyni að tína til barmmerkingaplastvasana úr skúffum sínum en ég verð með drjúgan slatta til reddinga. Eðli málsins samkvæmt þurfa ættmæðurnar minnstu spjöldin og sumt yngsta fólkið þau stærstu en minnsta mál að býtta. Hér eru sýnishorn og myndin stækkar ef smellt er á hana:
Eins og sjá má legg ég áherslu á skýrt letur og stóra stafi enda sjálf komin með tigergleraugu númer þrjú :)
Eru ekki margir búnir að láta sér detta eitthvað gott í hug til að stytta okkur stundir á laugardagskvöldið?
Mig vantar aldursskilgreiningu á börnum sem þessir hafa skráð með sér: Þórmar, Jóhanna R., Ingi Freyr, Dorothea og Freyr. Þetta er til að vita hversu margir eru nógu ungir til að vera greiðslufríir.
Við göngum út frá að þeir sem ekki hafa tilgreint sérstaklega gistimátann verði á tjaldsvæðinu, við ætluðum að láta staðarhaldara vita svona sirka hvað við erum mörg í húsi og á tjaldsvæði.

Thursday, July 5, 2012

Myndir

Frá Heiðari:
Páll bróðir hafði samband í gær og kvaðst ætla að taka saman einhverjar ættarmyndir sem væri hægt að láta rúlla annaðhvort í tölvu eða á tjaldi ef það er í boði þarna. Hann var að spá í því  hvort að einhverjir ættu myndir sem þeir gætu komið með á diski eða lykli sem væri hægt að setja í eina tölvu og sýna. Mætti kannski henda þeim skilaboðum inn á bloggið.
kv.hj

Við gerum ráð fyrir að greiðslum fyrir mat og sal verði háttað svona:
13 ára og eldri: einn hluti,
7 til 12 ára: 1/2 hluti,
0 til 6 ára: frítt.

Wednesday, July 4, 2012

99 búnir að staðfesta takk fyrir og ég hef grun um a.m.k. 5 í viðbót!!

Ég fór að leita og fann 29 barmmerkjaplastvasa sem flestir voru notaðir á síðasta móti. Ég legg til að við upprunamerkjum mannskapinn :) Það er þannig gert að ef ég tek dæmi af mínu fólki þá stendur bara Hlíf á spjaldi mömmu en ömmustrákur minn væri svona:
Hlíf
Elín
Kjartan
Jóhann Smári.

Mamma hans væri svona:
Hlíf
Elín
Kjartan
Maki: Elsa Guðný


Með þessu móti þarf ekkert að velta vöngum yfir tengingunni. Ég veit fyrir víst að enginn sem verður á svæðinu þekkir alla og margir þekkja tiltölulega fáa, það gildir ekki síst um viðhengin sem ég kýs að skáletra.

Ég er svo treggáfuð að ég næ hreint ekki að melta alla í fyrstu kynningu og það er vandræðalegt að vera að margspyrja blásaklaust fólk trekk í trekk; hvur á þig góði minn? Ég hef ekki trú á að ég sé ein um þetta. Mér sýnist á þessum vösum að síðast hafi mömmu leggur verið grænn, Rögnu rauður og Helga segir hvítt fyrir Dórulegg. Ég geri ráð fyrir að útbúa merkin fyrir mína afkomendur og ég get vel tekið að mér fleiri ef vill og það má ræða það eftir helgina.
Uppfært: Ég er búin að finna 6 vasa í viðbót, kemur sér vel að hafa af og til tekið þátt í sýningum. Þeir eru mjög misstórir þannig að nóg pláss ætti að vera fyrir yngstu manneskjurnar sem geta verið komnar með einar 5 línur held ég. Var að hugsa hvort ekki væri skilmerkilegast að allir noti hvítan grunn með ef til vill svörtu letri og túss eða áherslupenna í viðeigandi lit umhverfis? Hvaða lit kýs Inguleggur?


Nú fer ég á morgun áleiðis að jarðarför á Ísafirði og kem ekki heim í netsamband fyrr en á mánudag þegar ég verð búin að keppa í Ull í fat á Hvanneyri.

Ég er til í að halda utan um góðar dagskrárhugmyndir en aðrir eru örugglega betri í að framkvæma þær. Mokum þeim hingað inn og sjáum hvernig það kemur út.

Tuesday, July 3, 2012

Þetta lítur reglulega vel út, mér virðist stefna í hundraðið svei mér þá. Ég verð að ítreka að við mælumst til að allir sem ætla að vera með láti vita hérna inni núna, þá á ég við líka þá sem létu ákveðið vita í vetur með herbergjapöntunum jafnvel. Við þurfum þetta meðal annars vegna matarinnkaupanna. Í okkar kynslóð vantar að fregna frá Einari Jónasi, Heiðveigu, Einari Jóhanns, Árna, Atla og Dóru Björk. Rifjum svo líka upp hvort verið geti að einhver hafi enn ekki frétt af þessu brambolti okkar. Ég færi þessar upplýsingar jafnóðum inn á skjal til að hafa yfirsýn.
Athugið samt að ekki verður lokað fyrir skráningar og eins kann vel að vera að einhver forfallist á síðustu stundu þannig að ekki verður búin til endanleg tala um kostnaðinn fyrr en á mótinu en þetta stefnir í að salarleigan deilist vel út. Við gerum ráð fyrir að börn greiði hálft gjald fyrir mat og sal en aldursmörk eru ekki frágengin hvað það varðar.

Þá að öðrum málum: Við hvetjum eindregið mannskapinn til að leggja nú hausinn í bleyti og upphugsa eitthvað skemmtilegt á kvöldvökuna. Við erum ekkert á leiðinni á ættarmót til að horfa bara og hlusta á hina heldur taka þátt. Þú getur rifjað upp gamalt þorrablótsatriði, kallað fólk á svið til að leika frumsamið efni, sungið gamanvísur notaðar eða nýjar, lesið frásöguþátt, látið fólk leika orð a la útsvar og svo framvegis og framvegis. Nú er ég að tala við ykkur öll, krakkana líka auðvitað. Styttri atriði eru oft betri en lengri. Ágætt væri líka að hafa eitthvert efni til fjöldasöngs, ertu kannski til í útgáfuna eins og síðast Helga Lilja? Okkur Heiðari þótti sorglegt í gærkveldi hvað við virðumst lítið hafa framleitt af tónlistarfólki sem gefur kost á undirleik, er einhver þarna sem er til í að grípa með sér gítar eða getur glamrað undir á hljómborð, harmoniku eða eitthvað? Kannski einhver hafi fundið hentugan maka í þetta?

Eins og síðast skulum við taka með okkur allt sem við finnum af nafnspjaldabarmnæluplastvösum til að merkja mannskapinn, ég get reynt að finna pappír í fjórum litum til að merkja greinarnar. Hver vill hvaða lit? Það hafa komið fram hugmyndir um að hver leggur auðkenni sig með einhverjum hætti en hvað sem fólki dettur í hug í því sambandi er samt full þörf á nafnamerkingum líka þar sem stöðugt bætast við nýir afkomendur og viðhengi.

Mér þykir sennilegt að fólk komi almennt á svæðið á föstudeginum, og tínist svo á brott seinni part sunnudags. Takið með ykkur allra handa útileikjadót og svo finnum við kannski einhverja þægilega leið fyrir sameiginlegan labbitúr fyrri hluta laugardagsins?

Hugmyndabankinn er opinn hér upp á gátt og öll innlegg vel þegin.
Ella Kjartans.